Þjóðverjar áhugasamir um Þykka

Þjóðverjar áhugasamir um Þykka

Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að útgefandi Bókafélagsins hafi greint augljósan áhuga meðal erlendra útgefanda á verkum Egils Egilssonar þar sem hann var staddur á bókamessunni í Frankfúrt. En Íslanda var heiðursgestur á hátíðinni. Fréttin, sem einnig má finna á Vísi hér , er svohljóðandi:

"Fréttir af fólki 21. október 2011

Þjóðverjar spenntir fyrir Heilræðum Gillzeneggers

Bókamessan í Frankfurt er nýafstaðin. Þar var Ísland og íslenskar bókmenntir í öndvegi og vakti litla sögueyjan óhemju athygli. Einn rithöfundanna sem þýskir bókmenntapáfar sýndu áhuga var Egill „Gillzenegger" Einarsson.

„Það ætti nú ekki að koma á óvart að hróður Gillz hafi borist út fyrir landsteinana, hvernig má annað vera um metsölurithöfund frá sjálfri sögueyjunni," segir Jónas Sigurgeirsson, útgefandi í Bókafélaginu.

Jónas var einn fjölmargra íslenskra bókaútgefenda á Bókamessunni í Frankfurt á dögunum. Þar kynnti hann þær bækur sem hann hefur gefið út undanfarin misseri sem og óútkomin verk. Jónas lætur vel af för sinni en einn af þeim höfundum sem þýskir útgefendur sýndu áhuga var Egill „Gillzenegger" Einarsson. Útgefandinn leggur þó áherslu á að ekkert sé enn frágengið um útgáfu á verkum Egils: „Engir samningar hafa enn verið gerðir enda best að flýta sér hægt í þeim efnum," segir hann. „Hins vegar er búið að útbúa kápu þýskum aðilum til glöggvunar en næsta bók hans heitir Heilræði Gillz."

Gillzenegger var hins vegar borubrattur þegar Fréttablaðið náði af honum tali í gær. „Þetta kom mér ekki á óvart enda hef ég rölt um götur í Þýskalandi. Þjóðverjinn er búinn til úr stáli og Stóri G-höfðinginn er búinn til úr stáli þannig að við pössum vel saman."

Gillzenegger kveðst ekki hafa komist á Bókamessuna þar sem hann var við upptökur á sjónvarpsþætti á Benidorm. „Útgefandinn hringdi í mig þegar ég var á Bene og sagði mér af þessum áhuga. Mér þótti leitt að komast ekki en vil fá að lýsa yfir mikilli ánægju með þetta Frankfurtardæmi, fyrir hönd okkar rithöfunda. Halldór Guðmundsson hefur unnið þrekvirki við að koma verkum okkar á framfæri á erlendri grundu og við megum vera þakklát fyrir. Sjálfur er ég metsöluhöfundur og þarf ekki eins mikið á opinberum stuðningi að halda og til að mynda Hallgrímur Helgason. En ég er ánægður með þessa samvinnu sem sást á Bókamessunni."