Bækurnar
Útgáfa 2011
Heilsa og næring
Heilsudrykkir – eftir Auði Ingibjörgu Konráðsdóttur
Í þessari fallegu bók er fjöldi uppskrifta að einföldum, hollum og umfram allt ljúffengum drykkjum. Höfundurinn, Auður Ingibjörg Konráðsdóttir, hefur getið sér gott orð sem heilsukokkur en hún rekur vefsíðuna heilsukokkurinn.is. Auður Ingibjörg er lærður matreiðslumaður og bakari – hefur áratuga reynslu að baki í faginu, einkum er snýr að matreiðslu heilsurétta og hefur haldið vinsæl námskeið um heilsufæði. 80 bls. ISBN 978-9935-426-06-2. Bókafélagið.
Einfaldara sushi – eftir Steven Pallet
Sushi er bragðgóður og næringarríkur japanskur réttur sem þú getur auðveldlega búið til heima hjá þér. Sushi-kokkurinn Steven Pallett leiðir þig skref fyrir skref í gegnum listina að framreiða sushi. Pallett útskýrir með einföldum hætti hvernig á bæði að búa til og snæða sushi. Bókin er í þýðingu Rósu Guðbjartsdóttur, en einn fremsti sushi-matreiðslumaður á Íslandi, Sigurður Karl Guðgeirsson, eigandi og yfirmatreiðslumaður sushi-veitingastaðarins suZushii, í Kringlunni, hefur staðfært uppskriftir og lagað að íslensku hráefni og aðstæðum. Sushi-bókin kemur í öskju með DVD kennsludisk í sushi-gerð, auk áhalda til sushi-gerðar. 64 bls. ISBN 978-9935-426-05-5. Bókafélagið.
Náttúruleg fegurð – eftir Arndísi Sigurðardóttur
Skemmtilegt, auðvelt og hagkvæmt er að búa til sínar eigin snyrtivörur og dekra við líkamann heima í stofu. Í Náttúrulegri fegurð getur að líta fjölda uppskrifta eftir Arndísi Sigurðardóttur. Um er að ræða náttúrulegar og umhverfisvænar snyrtivörur og leiðbeiningar um hvað hentar húð og hári hvers og eins. Í bókinni er að finna fjöldan allan af uppskriftum að kremum, skrúbbum og möskum fyrir andlit og líkama, fóta- og handaböðum, og hárnæringu. Uppskriftirnar byggja allar á aðgengilegu og einföldu hráefni. Bókina prýðir fjöldi fallegra ljósmynda. Náttúruleg fegurð er bók sem fengur er í fyrir alla sem áhuga hafa á náttúrulegum snyrtivörum. 96 bls. ISBN 978-9935-426-11-6. Bókafélagið.
Hvers vegna fitnum við – og hvað getum við gert í því – eftir Gary Taubes
Í þessari skýru og greinargóðu bók tekur kunnur, bandarískur vísindablaðamaður, Gary Taubes, fyrir spurningarnar hvers vegna við fitnum og hvað við getum gert við því. Hann hrekur ýmsar goðsagnir og eldri kenningar um það hvers vegna við séum feit og reynir með aðstoð vísindalegra gagna að skýra offitufaraldurinn. Hvaða máli skipta erfðir og hvaða hlutverki leika sykrur í offitu? Jafnframt leiðbeinir hann fólki um hvernig það eigi að bregðast við, ef fita fer að setjast utan á það. Ráð hans eru raunhæf og jarðbundin, og hann ætlast ekki til hins ómögulega. En umfram allt reynir Taubes að fá okkur til að skilja hvað er um að vera. 224 bls. ISBN 978-9935-426-14-7. Bókafélagið.
HaPP HaPP húrra – Unnur Guðrún Pálsdóttir og Edda Sverrisdóttir
Í HaPP-eldhúsinu eru grænmeti, ávextir, hnetur og fræ í öndvegi. Það er fátt fallegra en litatónar ávaxta og grænmetis. Litirnir bera með sér lífsgleði og orku og með hæfilegu magni af hreinu kjöti og fiski verður til dásamlegur matur. Hér finnur þú uppskriftir að næringarríkum mat í öll mál. Í bókinni eru fjölmargar uppskriftir að hollum réttum, skreyttum fallegum ljósmyndum. Vonandi verður þessi bók til þess að bæta heilsu þína og veita þér gleði og ánægju í eldhúsinu. Njóttu og gefðu þér tíma til að elda og skapa. Þú færð það margfalt til baka. 160 bls. ISBN 978-9935-426-15-4. Bókafélagið.
Handbækur
Heilræði Gillz – eftir Egil Gillz Einarsson
Rithöfundurinn, líkamsræktarfrömuðurinn, hugsuðurinn, sjónvarpsstjarnan og heimsborgarinn Egill „Gillz“ Einarsson er hér mættur með bestu bók sína til þessa. Hér nýtur hispurslaus og litríkur frásagnarmáti Egils sín vel enda eru markmiðin skýr og tilgangurinn með skrifunum fyrst og síðast göfugur: Að ungir menn sjái villur síns vegar, bæti ráð sitt og stefni að því að vera afbragð annarra manna. Útkoman er hafsjór heilræða, ungum mönnum á öllum aldri til heilla. 128 bls. ISBN 978-9935-426-17-8. Bókafélagið.
Uppeldi er ævintýri – eftir Margréti Pálu Ólafsdóttur
Margrét Pála, forsvarsmaður Hjallastefnunnar, er ein áhugaverðasta uppeldis- og skólamálamanneskja landsins. Hún er fyrir löngu þjóðþekkt fyrir störf sín með börnum sem kennari, fyrirlesari og álitsgjafi, enda hefur hún um 30 ára reynslu að baki. Undanfarið ár hefur Margrét Pála verið fastur gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 með pistla um uppeldi barna og umgengni við þau. Í þessari jákvæðu og um leið fróðlegu bók veitir Margrét Pála góð ráð til að ná árangri og meiri gleði í samskiptum við börn, jafnt innan fjölskyldna sem annars staðar. 240 bls. ISBN 978-9935-426-18-5. Bókafélagið.
Spilakaplar – eftir Þórarinn Guðmundsson
Fjölbreytni kapla er mikil og talið að þeir séu fleiri en öll önnur spil til samans og meira spilaðir. Í þessari bók er lýst mörgum þeim köplum sem hafa náð hvað mestum vinsældum hér á landi og erlendis. Það er gaman að leggja kapal og góð glíma fyrir hugann, auk þess sem það bægir um stund frá áhyggjum og amstri hversdagslífsins. Spilakaplar er endurútgáfa bókarinnar Spilakaplar AB sem Þórarinn Guðmundsson menntaskólakennari tók saman. Hún kom fyrst út árið 1990, var endurprentuð árið 1992 og hefur verið ófáanleg lengi. 192 bls. ISBN 978-9935-426-01-7. Bókafélagið.
Stjórnmál og saga
Icesave samningarnir – Afleikur aldarinnar?
Icesave-málið er fordæmalaust í íslenskri sögu. Sigurður Már Jónsson, fyrrum ritstjóri Viðskiptablaðsins, skyggnist á bak við tjöldin og lýsir vinnubrögðum og niðurstöðum samninganefnda Svavars Gestssonarar og Lees Buchheit. Deilurnar um samningana eru raktar sem og afskipti forseta Íslands af málinu. Þá er farið yfir ýmis stóryrði sem féllu á Alþingi og í fjölmiðlum um Icesave, klofninginn vegna málsins í röðum Vinstri grænna og gjörólíka afstöðu margra kunnustu fræðimanna landsins. Veruleikinn er lygilegri en nokkur skáldskapur! Þessi bók á eftir að vekja mikla athygli. 224 bls. ISBN 978-9935-426-20-8. Almenna bókafélagið.
Íslenskir kommúnistar – 1918-1998 eftir Hannes H. Gissurarson
Í þessari sérlega fróðlegu og vel skrifuðu bók er rakin saga íslenskra kommúnista í máli og myndum frá því að Brynjólfur Bjarnason tók þátt í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fram til þess að þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson þáðu boðsferð til kommúnistaflokks Kúbu haustið 1998. Óslitinn þráður var frá fyrstu aðdáendum kommúnismans til hinna síðustu. Nú hafa allar myndir af Stalín verið teknar niður í betri stofum á Íslandi en eftir stendur, að hreyfing íslenskra kommúnista náði hér meiri áhrifum en víðast annars staðar í lýðræðisríkjum, ekki aðeins í stjórnmálum heldur einnig í verkalýðshreyfingu og menningarlífi. 624 bls. og yfir 400 ljósmyndir prýða bókina. ISBN 978-9935-426-19-2. Almenna bókafélagið.
Stjórnmál og hagfræði – eftir Tryggva Þór Herbertsson
Greinasafn eftir Tryggva Þór Herbertsson alþingismann og prófessor í hagfræði. Skrif Tryggva hafa vakið marga til umhugsunar enda tekst honum að setja fram hugmyndir sínar og kenningar á skýran hátt. Fengur er í þessari bók fyrir alla áhugamenn um hagfræði, stjórnmál og þjóðmál almennt. 196 bls. ISBN 978-9935-426-16-1. Bókafélagið.
Skáldsögur
Uppsprettan – eftir Ayn Rand
Tímamótaskáldsaga eftir einhvern athyglisverðasta rithöfund 20. aldar. Uppsprettan fjallar um tvo arkitekta í New York sem halda út í lífið. Bókin er sérlega sterk og grípandi enda hefur hún verið þýdd á fjölmörg tungumál og selst í 6,5 milljónum eintaka. Þýðandi bókarinnar er Þorsteinn Siglaugsson, en bókin er endurbætt útgáfa frá fyrri útgáfu sem nefndist Uppruninn og kom út árið 1990. 524 bls. ISBN 978-9935-426-13-0. Almenna bókafélagið.
Makt myrkranna – Sagan um Drakúla greifa - eftir Bram Stoker
Sagan um Drakúla greifa eftir Bram Stoker er ein áhrifamesta skáldsaga síðari tíma. Hægt er að lesa hana sem hrollvekju, erótík eða reyfara. Makt myrkranna er fyrsta þýðing bókarinnar úr ensku, gerð um 1900 af Valdimari Ásmundssyni, sem á sinni tíð var talinn einn af bestu pennum landsins. Dr. Ásgeir Jónsson ritar fróðlegan eftirmála um tilurð og áhrif bókarinnar. 224 bls. ISBN 978-9935-426-09-3. Bókafélagið.
Barna- og unglingabækur
Skemmtibók Sveppa – Sverrir Þór Sverrisson
Skemmtibók Sveppa er stútfull af alls kyns skemmtilegheitum fyrir fjöruga krakka á öllum aldri. Hér hefur Sveppi tekið saman alla uppáhaldsleikina sína, hugmyndir að alls kyns tómstundum og dægradvöl, brandara og brellur, fyndnar örsögur, gómsætar, einfaldar uppskriftir, þrautir og ýmiss konar heilafóður. Þessi bók fær alla krakka til að víkja frá tölvunum og fara að leika sér. 112 bls. ISBN 978-9935-426-12-3. Bókafélagið.
Judy Moody oft í vondu skapi – Megan McDonald
Judy Moody er klár og fjörug stúlka sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Stundum er hún í góðu skapi, stundum vondu eða bara einhverju allt öðru skapi. Hér segir frá Judy, litla bróður hennar Stink og besta vini hennar Rocky. Sögurnar um Judy Moody og vini hennar hafa heillað unga lesendur og átt miklum vinsældum að fagna síðastliðinn áratug. Þær hafa unnið til fjölda verðlauna og selst í milljónum eintaka í yfir 20 löndum. Judy Moody oft í vondu skapi er fyrsta bókin um Judy sem kemur út á íslensku og er hér í frábærri þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Teikningar gerði Peter H. Reynolds 128 bls. í hörðu spjaldi. ISBN 978-9935-426-07-9. Bókafélagið.
Judy Moody verður fræg – Megan McDonald
Judy Moody er sjálfstæð, fjörug og yndisleg stelpa sem heillar unga lesendur. Hér tekst hún á við afbrýðisemina þegar dagblað birtir frétt um vinkonu hennar. Judy setur markið hátt; hún ætlar að verða fræg og koma sjálfri sér í blaðið! Bækurnar um hina ærslafullu Judy Moody hafa slegið í gegn víða um heim. Þær hafa unnið til fjölda verðlauna og selst í milljónum eintaka. Judy Moody verður fræg er hér í vandaðri þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Teikningar gerði Peter H. Reynolds. 112 bls. í hörðu bandi. ISBN 978-9935-426-08-6. Bókafélagið.
Fullkomnar prinsessur
Falleg dúkkulísubók um tvær prinsessur. Sagan fjallar um undirbúning afmælisveislu annarrar prinsessunar og svo veisluna sjálfa. Dúkkulísubók, með yfir tveimur dúkkulísum og 70 flíkum og fylgihlutum, sem ungviðið getur gleymt sér yfir langtímum saman. 24 bls. ISBN 978-9935-426-04-8. Bókafélagið.
Sjóræningjar
Skemmtileg bók fyrir litla grallara um sjóræningjaleiki og þrautir. Tvær sjóræningjagrímur fylgja með bókinni auk fjölda límmiða. Bókin býður lesendum uppá sniðuga leiki sem eru til þess fallnir að ýta undir skapandi og frjóa hugsun. 24 bls. ISBN 978-9935-426-02-4. Bókafélagið.
Bækur útgefnar 2010
Hið dökka man - Saga Catalinu, eftir Jakob Bjarnar Grétarsson og Þórarinn Þórarinsson
Ástin og stjörnumerkin, eftir Ellý Ármanns
Birta bleik og brött, eftir Belindu Theriault
Spilabókin
Kjarni málsins
Fegurstu ljóð Jónasar Hallgrímssonar
Dömusiðir, eftir Tobbu Marínós
Orð eru álög - leiðarvísir að lífsgleði, eftir Sigríði Klingenberg
Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, eftir Hannes H. Gissurarson
Mannasiðir Gillz, kilja
Bækur útgefnar 2009
Ævintýraeyjan – Uppgangur og endalok fjármálaveldis
Ég tvista til þess að gleyma – Fleyg orð úr íslenskum kvikmyndum
Augnablik – Hæfileikinn að hugsa án umhugsunar
Eldað af lífi og sál eftir Rósu Guðbjarts
Íslenska undrabarnið – Saga Þórunnar Ashkenazy
Mannasiðir Gillz – Handbók herramannsins
Eldri útgefnar bækur
Í stormum sinna tíða, ævisaga Benjamíns H. J. Eiríkssonar, Hannes H. Gissuararson skráði, útgefin 1995
Kvæði og kviðlingar Bóluhjálmars, útgefin 1995
Íslenskt söngvasafn, útgefið 1995
Skemmtileg skot á náungann, Sigurður Valgerisson tók saman, útgefið 1995
Með bros í bland, minningabrot Magnúsar Óskarssonar, útgefið 1996
Afmælisrit Davíðs Oddsonar, útgefin 1998
]]>