Uppeldi er ævintýri - ný bók eftir Margréti Pálu
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og höfundur Hjallastefnunnar, sendir frá sér nýja bók um sitt hjartans mál – uppeldi barna. Bókin heitir Uppeldi er ævintýri en í henni fer höfundur yfir hin ýmsu viðfangsefni sem upp koma í lífi og samskiptum barna og foreldra, kennara og annarra sem annast og umgangast börn.
Eftir meira en 30 ára starf með börnum í leik- og grunnskólum er Margrét Pála hafsjór fróðleiks um uppeldismál. Hún hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim eins og glöggt hefur komið fram í vinsælum pistlum hennar um börn og uppeldi á Rás 2 síðastliðið ár. Í Uppeldi er ævintýri fer Margrét Pála meðal annars yfir hugmyndir sínar um aga og réttlátar reglur, reksturinn á Fjölskyldunni ehf., tölvu- og netnotkun barna og fjölmargt annað fróðlegt fyrir foreldra og annað áhugafólk um yngstu þjóðfélagsþegnana.
Uppeldi og umönnun barna er ábyrgðarhlutverk, sem allir vilja rækja eins vel og þeim er unnt. Uppeldi er ævintýri er því kærkomin bók fyrir allar fjölskyldur sem vilja auka þekkingu sína og færni og efla gleðina í uppeldinu.
Margrét Pála er löngu þjóðþekkt fyrir störf sín að uppeldis- og menntamálum sem kennari, fyrirlesari, höfundur og álitsgjafi. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á sviði jafnréttis- og uppeldismála svo og fyrir frumkvöðlastarf í skólastarfi.