Bókafélagið

Marta María um Hvers vegna fitnum við?

Blaðamaðurinn Marta María fjallar um Hvers vegna fitnum við - og hvað getum við gert í því? á mbl.is - bók sem Bókafélagið gaf nýverið út í íslenskri þýðingu. Skrifin getur að líta hér að neðan.

"Vísindarithöfundurinn Gary Taubes skrifaði bókina, Hvers vegna fitnum við og hvað getum við gert við því?Nú er búið að þýða bókina yfir á íslensku og svarar hún mörgum spurningum.

Bókin kom út í Bandaríkjunum fyrr á árinu og vakti strax mikla athygli. Gary Taubes er dálkahöfundur fyrir tímaritið Science og hafa skrif hans birst í The Atlantic, The New York Times Magazine og Esquire. Verk hans hafa verið tilnefnd sem bestu alþjóðlegu skrif um vísindi árið 2010 og er hann margverðlaunaður fyrir vísindaskrif sín. Í dag starfar hann hjá Rannsóknarmiðstöð um heilbrigðisstefnu í Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Hann veltir upp mörgum spurningum í bókinni eins og hvaða máli erfðir skipta og hvaða hlutverki gegna sykrur í offitu. Af hverju misheppnast flestir megrunarkúrar? Hvað er það í mataræði Vesturlandabúa sem veldur vestrænum sjúkdómum eins og sykursýki, alzheimer, hjartasjúkdómum og krabbameini? Þetta er bók sem á brýnt erindi við Íslendinga.

Í bókinni eru raunhæf og jarðbundin ráð þar sem ekki er ætlast til hins ómögulega. Þessa bók þurfa allir að lesa sem hafa áhyggjur af offitu hvort sem hún bitnar á þeim sjálfum eða á vandamönnum þeirra, til dæmis börnum og unglingum. Auðvitað er ekki til nein einföld lausn en það er þó margt gagnlegt í bókinni.

Í bókinni kemur fram að við eigum að borða salöt daglega, eða allavega tvo bolla á dag af klettasalati, kínakáli, hvítkáli, jöklasalati, jólasalati, rauðrófum, hreðkum, grænkáli, steinselju, spínati, radísum, vorlauk, karsa eða graslauk.

Auk þess mælir hann með því að við borðum einn bolla af ósoðnu grænmeti á dag eins og spergilkáli, rósakáli, blómkáli, blaðselju, agúrku, strengjabaunum, sveppum, baunaspírum, tómötum, rababara eða kúrbít.

Hann mælir með tæru kjötseyði, helst tveimur bollum á dag til þess að fá natríum. Hann mælir sérstaklega með tærri kjötsúpu.

Taubes mælir með því að við borðum ost, rjóma, mæjónes, ólífur, lárperu, sojasósu og súrar gúrkur í hófi.

Bókafélagið gefur bókina út og Jónas Sigurgeirsson útgefandi þýddi hana."

Uppeldi er ævintýri - ný bók eftir Margréti Pálu

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og höfundur Hjallastefnunnar, sendir frá sér nýja bók  um sitt hjartans mál – uppeldi barna. Bókin heitir Uppeldi er ævintýri en í henni fer höfundur yfir hin ýmsu viðfangsefni sem upp koma í lífi og samskiptum barna og foreldra, kennara og annarra sem annast og umgangast börn.

Eftir meira en 30 ára starf með börnum í leik- og grunnskólum er Margrét Pála hafsjór fróðleiks um uppeldismál. Hún hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim eins og glöggt hefur komið fram í vinsælum pistlum hennar um börn og uppeldi á Rás 2 síðastliðið ár. Í Uppeldi er ævintýri fer Margrét Pála meðal annars yfir hugmyndir sínar um aga og réttlátar reglur, reksturinn á Fjölskyldunni ehf., tölvu- og netnotkun barna og fjölmargt annað fróðlegt fyrir foreldra og annað áhugafólk um yngstu þjóðfélagsþegnana.

Uppeldi og umönnun barna er ábyrgðarhlutverk, sem allir vilja rækja eins vel og þeim er unnt. Uppeldi er ævintýri er því kærkomin bók fyrir allar fjölskyldur sem vilja auka þekkingu sína og færni og efla gleðina í uppeldinu.

Margrét Pála er löngu þjóðþekkt fyrir störf sín að uppeldis- og menntamálum sem kennari, fyrirlesari, höfundur og álitsgjafi. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á sviði jafnréttis- og uppeldismála svo og fyrir frumkvöðlastarf í skólastarfi.

Þjóðverjar áhugasamir um Þykka

Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að útgefandi Bókafélagsins hafi greint augljósan áhuga meðal erlendra útgefanda á verkum Egils Egilssonar þar sem hann var staddur á bókamessunni í Frankfúrt. En Íslanda var heiðursgestur á hátíðinni. Fréttin, sem einnig má finna á Vísi hér , er svohljóðandi:

"Fréttir af fólki 21. október 2011

Þjóðverjar spenntir fyrir Heilræðum Gillzeneggers

Bókamessan í Frankfurt er nýafstaðin. Þar var Ísland og íslenskar bókmenntir í öndvegi og vakti litla sögueyjan óhemju athygli. Einn rithöfundanna sem þýskir bókmenntapáfar sýndu áhuga var Egill „Gillzenegger" Einarsson.

„Það ætti nú ekki að koma á óvart að hróður Gillz hafi borist út fyrir landsteinana, hvernig má annað vera um metsölurithöfund frá sjálfri sögueyjunni," segir Jónas Sigurgeirsson, útgefandi í Bókafélaginu.

Jónas var einn fjölmargra íslenskra bókaútgefenda á Bókamessunni í Frankfurt á dögunum. Þar kynnti hann þær bækur sem hann hefur gefið út undanfarin misseri sem og óútkomin verk. Jónas lætur vel af för sinni en einn af þeim höfundum sem þýskir útgefendur sýndu áhuga var Egill „Gillzenegger" Einarsson. Útgefandinn leggur þó áherslu á að ekkert sé enn frágengið um útgáfu á verkum Egils: „Engir samningar hafa enn verið gerðir enda best að flýta sér hægt í þeim efnum," segir hann. „Hins vegar er búið að útbúa kápu þýskum aðilum til glöggvunar en næsta bók hans heitir Heilræði Gillz."

Gillzenegger var hins vegar borubrattur þegar Fréttablaðið náði af honum tali í gær. „Þetta kom mér ekki á óvart enda hef ég rölt um götur í Þýskalandi. Þjóðverjinn er búinn til úr stáli og Stóri G-höfðinginn er búinn til úr stáli þannig að við pössum vel saman."

Gillzenegger kveðst ekki hafa komist á Bókamessuna þar sem hann var við upptökur á sjónvarpsþætti á Benidorm. „Útgefandinn hringdi í mig þegar ég var á Bene og sagði mér af þessum áhuga. Mér þótti leitt að komast ekki en vil fá að lýsa yfir mikilli ánægju með þetta Frankfurtardæmi, fyrir hönd okkar rithöfunda. Halldór Guðmundsson hefur unnið þrekvirki við að koma verkum okkar á framfæri á erlendri grundu og við megum vera þakklát fyrir. Sjálfur er ég metsöluhöfundur og þarf ekki eins mikið á opinberum stuðningi að halda og til að mynda Hallgrímur Helgason. En ég er ánægður með þessa samvinnu sem sást á Bókamessunni."

SUSHI á íslensku

Sushi er bragðgóður, næringarríkur og marglita japanskur réttur sem þú getur auðveldlega búið til heima hjá þér. Sushi-sérfræðingurinn Steven Pallett leiðir lesandann, skref fyrir skref, í gegnum listina að framreiða sushi. Steven útskýrir með einföldum hætti hvernig á bæði að búa til og bera sig að við að snæða sushi. Bókin er í þýðingu Rósu Guðbjartsdóttur en einn fremsti sushi-matreiðslumaður á Íslandi, Sigurður Karl Guðgeirsson, eigandi og yfirmatreiðslumaður sushi-veitingastaðarins suZushii, Kringlunni, hefur staðfært uppskriftir og lagað að íslensku hráefni og aðstæðum.

SUSHI-matreiðslubók hefur ekki komið út áður á íslensku. Þessi bók, ásamt kennslumyndbandi með íslenskum texta og helstu áhöldum til SUSHI-gerðar kemur brátt út á vegum Bókafélagsins.

Ástin og stjörnumerkin

Í þessari fróðlegu en um leið skemmtilegu bók miðlar Ellý Ármanns af þekkingu sinni á samskiptum kynjanna út frá fornum fræðum stjörnumerkjanna. Hér fá lesendur einnig innsýn í reynsluheim íslenskra kvenna sem tala opinskátt um kynlíf sitt og sambönd við karla í hinum ýmsu stjörnumerkjum.]]>