Marta María um Hvers vegna fitnum við?

Blaðamaðurinn Marta María fjallar um Hvers vegna fitnum við - og hvað getum við gert í því? á mbl.is - bók sem Bókafélagið gaf nýverið út í íslenskri þýðingu. Skrifin getur að líta hér að neðan.

"Vísindarithöfundurinn Gary Taubes skrifaði bókina, Hvers vegna fitnum við og hvað getum við gert við því?Nú er búið að þýða bókina yfir á íslensku og svarar hún mörgum spurningum.

Bókin kom út í Bandaríkjunum fyrr á árinu og vakti strax mikla athygli. Gary Taubes er dálkahöfundur fyrir tímaritið Science og hafa skrif hans birst í The Atlantic, The New York Times Magazine og Esquire. Verk hans hafa verið tilnefnd sem bestu alþjóðlegu skrif um vísindi árið 2010 og er hann margverðlaunaður fyrir vísindaskrif sín. Í dag starfar hann hjá Rannsóknarmiðstöð um heilbrigðisstefnu í Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Hann veltir upp mörgum spurningum í bókinni eins og hvaða máli erfðir skipta og hvaða hlutverki gegna sykrur í offitu. Af hverju misheppnast flestir megrunarkúrar? Hvað er það í mataræði Vesturlandabúa sem veldur vestrænum sjúkdómum eins og sykursýki, alzheimer, hjartasjúkdómum og krabbameini? Þetta er bók sem á brýnt erindi við Íslendinga.

Í bókinni eru raunhæf og jarðbundin ráð þar sem ekki er ætlast til hins ómögulega. Þessa bók þurfa allir að lesa sem hafa áhyggjur af offitu hvort sem hún bitnar á þeim sjálfum eða á vandamönnum þeirra, til dæmis börnum og unglingum. Auðvitað er ekki til nein einföld lausn en það er þó margt gagnlegt í bókinni.

Í bókinni kemur fram að við eigum að borða salöt daglega, eða allavega tvo bolla á dag af klettasalati, kínakáli, hvítkáli, jöklasalati, jólasalati, rauðrófum, hreðkum, grænkáli, steinselju, spínati, radísum, vorlauk, karsa eða graslauk.

Auk þess mælir hann með því að við borðum einn bolla af ósoðnu grænmeti á dag eins og spergilkáli, rósakáli, blómkáli, blaðselju, agúrku, strengjabaunum, sveppum, baunaspírum, tómötum, rababara eða kúrbít.

Hann mælir með tæru kjötseyði, helst tveimur bollum á dag til þess að fá natríum. Hann mælir sérstaklega með tærri kjötsúpu.

Taubes mælir með því að við borðum ost, rjóma, mæjónes, ólífur, lárperu, sojasósu og súrar gúrkur í hófi.

Bókafélagið gefur bókina út og Jónas Sigurgeirsson útgefandi þýddi hana."

Tags